Framsóknarflokkurinn platar og Sjálfstæðisflokkurinn er eins og sauður sem eltir Framsókn, að sögn Árna Páls Árnasonar, formann Samfylkingarinnar.  Hann segir flokkana ætla að keyra upp bóluhagkerfi.

Hann ræðir um kosningamál flokksins í viðtali við Fréttablaðið í dag, mikilvægi þjóðarsáttar um markmið í efnahagsmálum á næsta kjörtímabili, nýjan og stöðugan gjaldmiðil og sveiflur í efnahagslífinu.

„Baráttan um stöðugleikann stendur núna. Ef við náum ekki að snúa af þeirri braut sem hefur einkennt íslenska hagstjórn undanfarna áratugi verða áfram verðbólgugusur. Við stöndum frammi fyrir óvissuástandi á næstu árum og gætum farið í hefðbundnar bólur og dýfur, sem munu valda nýrri hrinu eignamissis og efnahagslegra hörmunga. Ef við hefjum ekki vegferðina í átt að stöðugleika strax munum við aldrei ná honum,“ segir hann og leggur áherslu á að Íslendingar búi ein Evrópuþjóða við fullkomna óvissu um raungildi launa á milli mánaða.

Ómögulegt að komast út úr bólunni

Hann segir mikilvægt í þá átt að afnema gjaldeyrishöft og byggja upp efnahagslífið að trúverðugleiki ríki um leiðina. Það bjóði hinir stóru flokkarnir ekki, þ.e. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur.

„Ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur komast til þess að gera það sem þeir hafa verið að lofa verður nýr gjaldmiðill ekki tekinn upp næstu áratugi. Þá verður keyrt hér bóluhagkerfi áfram og okkur gert ómögulegt að komast út úr því um fyrirsjáanlega framtíð.“