Framlög til Varnarmálastofnunar verða skorin niður á næsta ári og er stefnt að því að leggja stofnunina niður í núverandi mynd, að því er fram kemur í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Þar er jafnframt tekið fram að niðurskurðurinn eigi ekki að koma niður á varnar- og öryggisskuldbindingum Íslendinga.

Varnarmálastofnun var sett á laggirnar með lögum sem samþykkt voru á Alþingi í apríl á síðasta ári. Stofnunin tók til starfa 1. júní sama ár. Samkvæmt lögunum ber stofnuninni að sinna verkefnum á sviði varnarmála.

Forstjóri er Ellisif Tinna Víðisdóttir, lögfræðingur. Fastráðnir starfsmenn eru fjörutíu og sex. Sjö þeirra starfa við ratsjárstöðvar stofnunarinnar á Bolafjalli, í Stokksnesi og á Gunnólfsvíkurfjalli.

Samkvæmt fjárlögum er kostnaður við rekstur Varnarmálastofnunarinnar á þessu ári um 1,2 milljarðar króna.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins eru sparnaðaraðgerðir boðaðar en þar segir ráðuneytið muni skera niður rekstrarútgjöld um 10% á næsta ári til viðbótar áður ákveðnum sparnaði.

Meðal annars eigi að draga saman framlög til þróunarsamvinnu og friðargæslu.

Embættisbústaðir sendiráða seldir

Þá á að fækka á sendiskrifstofum á þessu ári og því næsta jafnframt því sem starfsliði verður fækkað. „Þá verður búið að loka, eða taka ákvarðanir um lokun á sjö sendiskrifstofum á árinu."

„Ákveðið hefur verið að selja embættisbústaði í New York, London, Washington, Ottawa og Tókíó og andvirði þeirra lagt í ríkissjóð. Þá mun fækka nokkuð í hópi sendiherra og nýir verða ekki skipaðir í staðinn um sinn," segir í tilkynningunni.