Samkvæmt tillögu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að nýjum raforkulögum er hægt að krefja þann sem óskar eftir breytingu á staðsetningu flutningslínu um kostnaðinn sem af því hlýst. Þetta getur varpað milljónakostnaði á sveitarfélög, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Sveitarstjórnarmenn, náttúruverndarsamtök og Samband íslenskra sveitarfélaga eru ekki sátt við ákvæði frumvarpsins sem lýtur að því að ef gerð er athugasemd við staðsetningu raflínu, sem Landsnet velur, þá borgi sá fyrir sem gerði athugasemdina.

Haft er eftir Guðjóni Bragasyni, lögfræðingi SÍS, að fulltrúar sambandsins hafi gert athugasemdir við ákvæðið á samráðsfundum. Hann segir orðalagið ekki nógu skýrt og betra væri að fella þetta ákvæði úr frumvarpinu.