Í kjölfar dóms Hæstaréttar í október á síðasta ári geta sveitarfélög, sem hafa virkjaðar ár á sínu landi og arðgæf vatnsréttindi, óskað eftir því að Þjóðskrá Íslands meti vatnsréttindin til fasteignamats. Dómurinn í október kvað á um að skrá þyrfti vatnsréttindi jarðeigenda við Jökulsá á Dal í fasteignaskrá. Það þýðir að Fljótsdalshérað getur innheimt fasteignagjöld af Landsvirkjun vegna vatnsréttindanna.

Í desember óskaði Grímsness- og Grafningshreppur meðal annars eftir því að Þjóðskrá legði mat á vatnsréttindi við Sog og Þingvallavatn en þar eru þrjár virkjanir, Steingrímsstöð, Ljósafossstöð og Írafossstöð.

Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segist í samtali við Viðskiptablaðið reikna með því að sveitarfélagið muni óska eftir því að lagt verði mat á vatnsréttindin í Þjórsá. Á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár eru Búrfellsstöð, Sultartangastöð, Hrauneyjafossstöð, Vatnsfellsstöð, Sigöldustöð og Búðarhálsstöð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .