Erlendir aðilar hafa undanfarna daga keypt stystu flokka óverðtryggðra ríkisskuldabréfa, en gengi krónunnar styrktist um 3% í gær miðað við opinberar tölur Seðlabankans.

„Þessi vaxtamunarbolti er að einhverju leyti byrjaður að rúlla aftur, en eftir öðrum leiðum en áður, enda þurfti aðrar leiðir eftir að gjaldeyrisskiptamarkaðurinn fór í baklás, segir Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans. Hún segir að hækkanir undanfarinna daga endurspegli ástandið erlendis.

„Lækkun á skuldatryggingaálagi bankanna gefur tilefni til að ætla að aðgangur að lánsfé á erlendum mörkuðum fari loksins að verða betri,“ segir hún, en álag á tryggingar allra þriggja viðskiptabankanna hefur farið lækkandi síðustu daga. Edda Rós segir að ákveðnar vísbendingar séu um að það versta sé yfirstaðið í bili á erlendum mörkuðum.

„Okkar mál hanga svo mikið á því sem gerist þar. Auk þess er náttúrlega beðið eftir aðgerðum frá Seðlabankanum,“ segir hún, en greiningardeild Landsbankans spáir 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta bankans á fundi hans á fimmtudaginn og að kynntar verði aðgerðir sem auðveldi aðgang bankanna að erlendu lausafé.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .