Eins og áður hefur komið fram hér á vef Viðskiptablaðsins í dag hefur Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, keypt rekstur eins helsta samkeppnisaðilans, Iceland Express.

Kaupverðið er ekki gefið upp en kaupin hafa vakið nokkra athygli í flugheiminum í dag. Viðskiptablaðið greindi frá því þann 4. október sl. að Pálmi Haraldsson, eigandi Iceland Express, hefði boðið Skúla félagið til sölu. Þá fjallaði Viðskiptablaðið um rekstur beggja félaga, mikla hlutafjáraukningu, samkeppnina þeirra á milli og eins samskipti Skúla og Pálma.

VB Sjónvarp ræddi við Skúla um kaupin, aðdraganda þeirra og framhaldið. Hann var meðal annars spurður að því hversu mikið og þolinmótt fjármagn hann hefði til að sinna flugrekstri áfram.