Óánægja er með heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar um gjaldeyrisviðskipti í frumvarpi sem fjármálaráðherra hefur lagt fram um gjaldeyrismál, hjá bæði forstjóra Kauphallarinnar og Persónuvernd.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar telur að frumvarpið gangi of langt. Hann telur jafnframt að þar sem að aðilum er skylt að upplýsa um öll gjaldeyrisviðskipti milli landa - jafngildi það að segja frá öllum fjármagnshreyfingum.

Persónuvernd bendir einnig á mikilvægi þess að vernda persónuupplýsingar ef lögin ganga í gegn og benda á ákvæði í stjórnarskrá og lög um persónuvernd í því samhengi. „Persónuvernd  bendir  á  að  ekki  skuli  auka  eftirlitsheimildir  stjórnvalda gagnvart einstaklingum umfram það  sem nauðsynlegt er og að undangengnu hagsmunamati,“ kemur fram í umsögn Persónuverndar við lögin.

Hér má lesa umsagnir Kauphallarinnar og Persónuverndar um frumvarpið.