Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brim lýst ágætlega á nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

„Ég held að þessi ríkisstjórn hafi alla möguleika til að gera vel og öll tækifæri til þess," segir Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það sem ég hef heyrt frá, til dæmis fjármálaráðherra, þá finnst mér það skynsamlegt sem hann er að segja."

Vill breytingar á veiðigjaldi og vinnulöggjöf

Guðmundur hefur ekki áhyggjur af því að nýrri ríkisstjórn fylgi kollsteypur í stjórnun fiskveiða, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hefur hann áhyggjur af verkfalli sjómanna.

Telur hann að endurskoða þurfi vinnulöggjöfina frá 1938 sem geri hluta sjómanna kleyft að halda atvinnugreininni í gíslingu.

„Ég held að ríkisstjórnin geri sér alveg grein fyrir því að sjávarútvegur er ein af undirstöðugreinum samfélagsins," segir Guðmundur en hann vonast til að boðaðar breytingar á veiðigjaldinu muni taka tillit til mismunandi útgerðarforma.

Fyrri ríkisstjórn gerði mistök

„Það þarf að vanda til verka þegar það er lagt á. Það má ekki bara leggja veiðigjald á sem kemur misjafnt niður á útgerðarformin.

Það er kannski það sem voru mistök fyrri ríkisstjórnar. Veiðigjaldið var ekki nógu vandað, því það lagðist svo misjafnt á eftir útgerðarflokkum.

Veiðigjaldið er nú einungis reiknað út frá afkomu útgerðar, svo að fullvinnsluskip þurfa að borga veiðigjald af afurðaverðmæti sínu, meðan þau sem landa hráefni inn í hús, borga bara veiðigjald af hráefni."

Mismunar útgerðarmunstrum

Segir Guðmundur að í þessu felist hvati til að fullvinna allt í fiskvinnslu en ekki úti á sjó, sem dragi úr hagkvæmni

„Það er hagkvæmara að vinna sumar fisktegundir úti á sjó, en aðrar er hagkvæmara að vinna í landi, svo þetta mismunar útgerðarmunstrum," segir Guðmundur.

„Ég ber alla vega þá von að nú verði þetta lagað. Sjávarútvegsfyrirtækin eru bæði með veiðar og vinnslu, en eiga frystitogarar sem eru með vinnsluna úti á sjó, að borga veiðigjald af vinnslunni, meðan landvinnslan borgar ekkert?"