Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 122,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er 8,3 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra og nemur aukningin 7,2%, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að aflaverðmæti botnfisks nam 71,5 milljörðum króna sem er 5,6% aukning frá í fyrra. Þar af nam verðmæti þorskafla um 36,5 milljörðum króna og var það 12,8% meira en í fyrra. Þá nam aflaverðmæti ýsu 9,3 milljörðum króna og var það 10,3% meira en í fyrra.

Þá nam verðmæti uppsjávaraflans um 38 milljörðum króna sem er 7,6% aukning frá í fyrra. Aukningin skýrist af stórum hluta af 13 milljarða króna loðnuafla. Það var 4,3 milljörðum krónum verðmætari afli en á sama tíma í fyrra.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 58,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og nam aukningin 7% á milli ára, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.