Velta á fasteignamarkaði hefur aukist jafnt og þétt frá áramótum og síðustu vikur hefur í kringum 200 kaupsamningum verið þinglýst á viku, segir greiningardeild Kaupþings.

?Stórkaupavísitala Gallup er góð vísbending um framtíðareftirspurn á fasteignamarkaði en hún hefur haft mjög góða fylgni við veltu fyrir utan skot í mars sem líklega má rekja til mæliskekkju,? segir greiningardeildin.

Hún segir stórkaupavísitalan innihaldi upplýsingar frá einstaklingum á aldrinum 16-75 ára um fyrirhuguð húsnæðis- og bifreiðakaup auk ferða til útlanda. Ef húsnæðiskaup eru skoðuð sérstaklega sést að vísitalan hækkar um 32% frá birtingu síðustu mælingar stórkaupavísitölunnar.

?Ljóst er að vísitalan er mun hærri nú heldur en hún var mánuðina á eftir innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn þegar velta tók verulega við sér í kjölfarið. Ef vísitalan hefur það forspárgildi sem verið hefur ætti velta á fasteignamarkaði að fylgja í kjölfarið.

Bjartsýni íslenskra neytenda hefur verið mikil undanfarna mánuði en einnig gæti þessi aukna eftirspurn helgast af því að lánshlutfall Íbúðalánasjóðs var hækkað í mars sem hefur liðkað fyrir íbúðakaupum. Fasteignaverð frá áramótum hefur hækkað um 6%. Þessi vísbending um aukna eftirspurn á fasteignamarkaði gæti haft áhrif til enn frekari hækkunar fasteignaverðs á komandi mánuðum,? segir greiningardeildin.