Velta í dagvöruverslun jókst um 2,9% á föstu verðlagi í maí miðað við sama tíma í fyrra. Á breytilegu verðlagi nemur aukningin 8,0%. Verð á dagvöru hækkaði um 5,0% á síðastliðnum 12 mánuðum, samkvæmt upplýsingum Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Sala áfengis jókst um 4,0%, velta í fataverslun jókst um 0,3% á milli ára og í skóverslunar um 3,7%. Þá var velta í húsgagnaverslun 3,7% meiri í maí en í sama mánuði í fyrra og velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 0,7%. Á sama tíma jókst velta í tölvusölu um 11,4% á föstu verðlagi í maí í fyrra og farsímasala jókst um 100,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, minnkaði um 3,4% á föstu verðlagi og sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 22,5% á milli ára.

Sala á mat og drykkjarvöru er nokkuð stöðug að raunvirði þegar horft er yfir lengra tímabil. Velta dagvöruverslana síðustu 12 mánaða var 0,9% meiri að raunvirði en 12 mánuði þar á undan. Á sama tímabili jókst raunvelta áfengis um 0,3%. Þá hafa ekki orðið miklar breytingar í sölu á öðrum sérvörum eins og fötum og skóm, samkvæmt upplýsingum Rannsóknarseturs verslunarinnar.