Rekstur Ísafoldarprentsmiðju gekk vel á síðasta ári, samkvæmt endurskoðuðu ársuppgjöri félagsins. Heildarvelta félagsins árið 2005 var 795 milljónir króna og hafði aukist um 20% frá árinu áður. Hagnaður ársins reyndist vera 86 milljónir króna í samanburði við 65 milljóna króna hagnað árið áður sem jafngildir 32% aukningu.

Meginstarfsemi Ísafoldarprentsmiðju ehf. felst í rekstri á prentsmiðju sem meðal annars prentar Fréttablaðið, DV, Birtu og fjölda blaða og tímarita. Einnig býður prentsmiðjan upp á alla hefðbundna prentun. Þrír stærstu hluthafar félagsins eru: 365 Prentmiðlar ehf., Kristþór Gunnarsson framkvæmdastjóri og Kjartan Kjartansson prentsmiðjustjóri.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld (EBITDA) var 161 milljón króna á síðasta ári og jókst um 30% milli ára. Eigið fé félagsins er 217 milljónir og hefur aukist um 55% á milli ára. Hjá félaginu störfuðu að meðaltali 74 starfsmenn á síðasta ári.

Eignir fyrirtækisins tvöfölduðust á síðasta ári en þá var ráðist í fjárfestingu í nýju verksmiðjuhúsi að Suðurhrauni 1 í Garðabæ og voru gerðar miklar breytingar á því húsnæði, auk þess sem blaðaprentvél félagsins var stækkuð til mikilla muna. Einnig var fjárfest í 16 síðna Rotoman tímaritavél en með þeirri fjárfestingu getur félagið boðið upp á fjölbreyttari prentun og styttri afhendingatíma.

Að sögn Kristþórs Gunnarssonar gera áætlanir félagsins fyrir árið 2006 ráð fyrir að veltan fari yfir 1,2 milljarða króna. Á þessu ári verður haldið áfram með stækkun blaðaprentvélarinnar og mun blaðavélin eftir það geta prentað 80 blaðsíður í einni keyrslu. Verkefnastaða félagsins er góð, að sögn Kristþórs og útlit fyrir að árið í ár verði einnig hagfellt rekstri félagsins.