*

mánudagur, 6. desember 2021
Erlent 11. október 2021 11:09

Venjist hærra matvælaverði

Forstjóri Kraft Heinz segir að almenningur þurfi að sætta sig við hækkandi vöruverð á næstunni.

Ritstjórn
Kraft Heinz er hvað þekktast fyrir að framleiða tómatsósu og bakaðar baunir þó vöruflokkar félagsins hlaupi á þúsundum.
european pressphoto agency

Almenningur þarf að venjast hærra matvælaverði að sögn Miguel Patricio, forstjóra Kraft Heinz, eins stærsta matvælaframleiðanda heims. Fyrirtækið sé að hækka vöruverð í fjölmörgum löndum og í flestum vöruflokkum.

Hrávöruverð hefur hækkað skarpt síðastliðna mánuði sem leitt hefur til þess að matvælaverð hefur ekki verið hærra í áratug samkvæmt greiningu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

 Í faraldrinum dróg úr framleiðslu á ýmsum hrávörum, sér í lagi landbúnaðarafurðum af ýmsum orsökum.

Að undanförnu hefur eftirspurn eftir fjölda vöruflokka tekið að aukast á ný. Framleiðendum hefur ekki tekist að halda í við aukna eftirspurn. Þá hafa hækkandi laun og hækkun orkuverðs ýtt undir vöruverðshækkanir.

Kraft Heinz hefur þegar hækkað vöruverð á helmingi vara sinna í Bandaríkjunum og muni hækka verð víðar um heim. Í viðtali við BBC segir Patricio að skortur á vörubílstjórum á Bretlandi sé einnig orðið vandamál.

Ásgeir áhyggjufullur

Meðal þeirra sem hafa áhyggjur af hækkandi hrávöruverði er Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku sagði Ásgeir það gæti leitt af sér óheppilegan spíral ef hrávöruverðbólgu yrði svarað með auknum launakröfum. „Martröð íslenska seðlabankastjórans er að fá hrávöruverðbólgu af stað og henni sé svo svarað með launahækkunum."