Verðbólga hér á landi mælist nú 2,8% og hefur hún nær tvöfaldast frá áramótum samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem Hagstofan birti í morgun. Eftir að hafa haldist lág og undir meðaltalsverðbólgu í viðskiptalöndum okkar allt frá lokum árs 2002 hefur þróunin snúist við og mælist verðbólgan hér á landi nú meiri en í ESB ríkjunum og á evrusvæðinu annan mánuðinn í röð. Staða hagkerfisins í alþjóðlegum samanburði hefur því versnað hvað þetta varðar að undanförnu. Þótt munurinn á verðbólgu hér og í viðskiptalöndunum sé nú lítill í samanburði við þann mun sem mældist þegar verðbólgan rauk hér upp í lok árs 2001 í kjölfar skarprar gengislækkunar krónunnar ber að líta á aukna verðbólgu sem viðvörunarmerki.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að verðbólgan nú er umfram það sem ásættanlegt getur talist - hún er umfram verðbólgumarkið Seðlabankans, umfram verðbólguna í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við, hún vegur að kaupmættinum og kemur niður á samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. Seðlabankinn hefur nú þegar brugðist við þessu með vaxtahækkunum upp á 0,95%. Að okkar mati mun bankinn herða aðhaldið enn frekar á næstu mánuðum.