Verðbólga reyndist 3,7% í október og jókst frá 3,4% í fyrri mánuði. Verðbólgan er vel yfir markmiði Seðlabankans um 2,5% verðbólgu og nálgast nú efri þolmörk peningastefnunnar (4%). Hækkun húsnæðisverðs hefur ásamt hækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti kynt undir verðbólgu hér á landi að undanförnu. Lækkun langtímavaxta og bættur aðgangur að lánsfé til húsnæðikaupa er að öllum líkindum sá þáttur sem mestan þrýsting setur til hækkunar húsnæðisverðs um þessar mundir.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að vaxtalækkun sú er orðið hefur á íbúðalánum gengur þvert á aðgerðir Seðlabankans sem hækkar vexti um þessar mundir í þeim tilgangi að afstýra þenslu og óviðunandi verðbólgu í náinni framtíð. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 6,75% hefur bankinn hækkað vexti sína fjórum sinnum á árinu til þess að koma í veg fyrir aukna verðbólgu. Líklegt er að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína um allt að 50 til 70 punkta fyrir áramót og bankinn fer sennilega með vexti sína yfir 8% fyrir miðbik næsta árs.