Allir viðskiptabankarnir hafa nú skilað verðbólguspá fyrir mars.

Nokkur samhljómur er í spám bankanna þó allir spáir þeir mismunandi hækkun vísitölu neysluverðs og þar rmeð mismunandi verðbólgu í mars. Lítill munur er þó á spám greiningadeildanna.

Þannig spáir Glitnir því að 12 mánaða verðbólga verði 8,4%. Landsbankinn spáir 8,5% og Kaupþing 8,6%.

Gengislækkun krónunnar vegur hátt í verðbólguspám bankanna og talar greiningadeild Glitnis um „innflutta verðbólgu“ vegna þessa.

Matvara og bensín heldur áfram að hækka

Þá gera greiningadeildirnar ráð fyrir áframhaldandi verðhækkun matvöru auk hækkunar hrávöruverðs á erlendum mörkuðum. Í spám bankanna kemur fram að áhrif virðisaukaskattslækkana fyrir ári síðan detti út í þessum mánuði. Einnig er gert ráð fyrir frekar hækkun eldsneytisverðs.

„Loks vegur þungt að vetrarútsölum á fötum og skóm ætti nú að vera lokið að fullu og ætla má að sá hluti sem eftir var, komi fram nú. Þá er innlendur kostnaðarþrýstingur, meðal annars vegna mikillar launahækkunar á síðasta ári, enn til staðar,“ segir í verðbólguspá Glitnis.

Húsnæðisverð lækkar en hærri vextir vega þyngra

Landsbankinn segir í spá sinni að hægja muni á hækkun fasteignaverðs. „Í febrúar jókst kostnaður vegna eigin húsnæðis um 1,0% (áhrif á VNV 0,2%), þar af voru 0,15% áhrif vegna hærri raunvaxta og 0,05% vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis. Við eigum von á því að svipaða sögu verði að segja í marsmánuði en hækkun vaxta á húsnæðislánum hafa mun meiri áhrif en fasteignaverðshækkanir,“ segir í verðbólguspá Landsbankans.

Greiningadeild Kaupþings tekur í sama streng og segir; „Í síðustu verðmælingum hefur áhrif vegna markaðsverðs húsnæðis haft óveruleg áhrif á verðbólgutölur. Hins vegar hafa háir raunvextir haft áhrif til hækkunar á húsnæðislið í VNV. Greiningardeild gerir ráð fyrir svipaðri þróun í næstu verðmælingu Hagstofunnar.“