Nýjar reglur Evrópuþingsins gætu leitt til hækkunar verðs á innanlandssímtölum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Evrópuþingið samþykkti í síðustu viku að setja þak á gjöld fyrir notkun farsíma erlendis. Reglurnar taka gildi 1. júlí næstkomandi en eru innleiddar í nokkrum skrefum. Hér á landi þarf EES-nefnd að taka afstöðu áður en reglurnar taka gildi en í Morgunblaðinu er haft eftir Birni Gíslasyni, staðgengli forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar, að EFTA-ríkin ætli að vinna málið hratt.

Þessar nýju reglur kunna að hamla samkeppni því minni farsímafyrirtæki eiga erfiðara um vik að ná reikisamningum erlendis. Verð á farsímanotkun erlendis kemur aftur á móti til með að lækka. Þar sem erfitt getur verið fyrir fyrirtæki á Íslandi að semja um gott verð við stórfyrirtæki í Evrópu, í ljósi smæðar landsins, geta reglurnar að því leyti hjálpað íslenskum fyrirtækjum.