Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59% á milli febrúar og mars og hefur nú hækkað um 9,8% á ársgrundvelli, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Verðbólgan hjaðnaði því um 0,4 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 10,2%.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,52% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 8,6% á síðastliðnum tólf mánuðum. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar án húsnæðis 8,9% í janúar.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að verð á mat- og drykkjarvörum hafi hækkað um 0,7% á milli mánaða, verð á fötum og skóm hækkaði um 4,3% og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, hækkaði um 0,8%. Verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. lækkaði um 1,7%.

Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans höfðu spáð því að verðbólgan myndi hjaðni lítillega á milli febrúar og mars. Greining Íslandsbanka spáði því að vísitala neysluverðs hefði hækkað um 0,7% á milli mánaða og að verðbólga yrði 10,0%. Hagfræðideild Landsbankans gerði ráð fyrir að vísitalan myndi hækka um 0,61% á milli mánaða og að ársverðbólga yrði 9,8%.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti um eins prósentu stýrivaxtahækkun í síðustu viku og eru stýrivextir bankans nú 7,5%. Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er þann 24. maí.