Verðbólga í Bretlandi mældist 9% í apríl og hækkaði um 2 prósentustig frá fyrri mánuði. Verðbólgan þar í landi hefur ekki mælst hærri í 40 ár. Árshækkun vísitölu neysluverðs í Bretlandi er nærri tvöfalt meiri en Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, spáði fyrir um fyrir hálfu ári síðan, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Breska hagstofan sagði að þrjá fjórðu af verðbólguskotinu mætti rekja til þess að verðþak á gas- og raforkuverði var hækkað um 54% í síðasta mánuði. Hins vegar hefði verðlag einnig hækkað hratt í nærri öllum útgjaldaflokkum sem og verð á framleiddum vörum í Bretlandi.

Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, sendi frá sér yfirlýsingu í morgun og sagði hratt hækkandi orkuverð meginorsök verðbólguskotsins. „Við getum ekki verndað fólk alfarið gegn þessum alþjóðlegum vandamálum en við reiðum fram stuðning þar sem við getum og erum tilbúin að bregðast við með frekari aðgerðum.“