Í kjölfar verðlækkunar Tesla um allt að 20% í byrjun árs voru ýmsir fjölmiðlar snöggir að lýsa því yfir að verðstríð á markaðnum væri hafið. Svo virðist sem flestir af stóru bílaframleiðendum heims muni þó ekki feta í fótspor Tesla og lækka verð á rafbílum. Financial Times greinir frá.

Bandaríski bílaframleiðandinn Ford tilkynnti fyrir viku að hann hygðist auka framleiðslu og lækka verð á Mustang Mach-E um allt að 8,8%.

Aðrir bílaframleiðendur hafa þó enn sem komið er ekki ráðist í verðlækkanir. Mary Barra, forstjóri General Motors, sagði í síðustu viku að rafbílar fyrirtækisins væru rétt verðlagðir. Þá hafa Volkswagen, Hyundai og Kia ákveðið að lækka ekki verð.

Greiningaraðilar telja að verðlagning rafbíla muni sennilega lítið breytast á næstunni. „Þetta eru frekar svæðisbundin átök heldur en verðstríð,“ er haft eftir greinanda hjá JD Power.

Aðrir viðmælendur FT segja að stórir bílaframleiðendur neyðist nú, í kjölfar verðlækkunar Tesla, að endurreikna hversu langan tíma taki til að fjárfesting þeirra í rafbílaframleiðslu borgi sig. Þá mun breytt verðlagning Tesla vekja upp spurningar um viðskiptalíkön nýrra rafbílaframleiðenda.

Greinandi hjá Morgan Stanley hélt því fram í síðustu viku að framboð rafbíla verði líklega umfram eftirspurn í ár. Hann benti á lækkun á verði notaðra Tesla-bíla, færri pantanir hjá Lucid Motors og mat um minni pantanabók hjá Rivian, sem hætti að gefa upp stöðu pantanabókar. Rivian tilkynnti á miðvikudaginn að það hygðist segja upp 6% af starfsmönnum sínum.