Málflutningur í tveimur málum sem snúa að verðtryggðum íslenskum lánum fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn. Annars vegar var það mál Gunnars Engilbertssonar gegn Íslandsbanka og hins vegar mál Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Guðmundsdóttur gegn Íbúðalánasjóði. Í máli Gunnars liggur fyrir ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum. Héraðsdómur var fjölskipaður en það eru héraðsdómararnir Skúli Magnússon, Kolbrún Sævarsdóttir og Ásmundur Helgason sem dæma.

Mál Gunnars snýst um 4,4 milljóna króna verðtryggt húsnæðislán sem hann tók á fyrri hluta ársins 2007. Í málflutningi sínum í Héraðsdómi á mánudaginn lagði Einar Páll Tamimi, lögmaður Gunnars, áherslu á að skjólstæðingur hans hefði fengið rangar og villandi upplýsingar um lán sitt þegar hann skrifaði undir samninginn. Samningsákvæði í lánssamningnum væri ósanngjarnt í skilningi Evróputilskipunar (93/13/EBE), en tilskipunin fjallar um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Verðtryggingarákvæði ekki útskýrt rækilega

Einar Páll sagði að verðtryggingarákvæði samningsins hafi á engan hátt verið útskýrt rækilega í lánssamningnum. Hvorki hafi tengsl milli breytinga vísitölu neysluverðs og verðbreytinga á láninu verið útskýrt né hvaða þættir hafi áhrif á vísitöluna. Í þessu sambandi benti hann meðal annars á að miðað hefði verið við 0% verðbólgu í greiðsluáætlun lánsins. Eins og mörgum er kunnugt komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu í lok nóvember að það samrýmist ekki Evróputilskipun að miðað við 0% verðbólgu. Það gerði hann í máli sem Sævar Jón Gunnarsson höfðaði gegn Landsbankanum.

Í málflutningi sínum sagði Áslaug Árnadóttir, lögmaður Íslandsbanka, að Evróputilskipun um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ætti ekki við í máli Gunnars. Ákvæði samningsins, sem Gunnar hefði skrifað undir, væru í fullkomnu samræmi við reglur og lög um verðtryggingu. Vísitala neysluverðs væri hlutlaus verðmælikvarði sem samningsaðilar hefðu komið sér saman um að nota.

Sérfræðingur og í stjórnum fyrirtækja

Áslaug benti einnig á að Gunnar hefði árið 2005 tekið tvö verðtryggð lán hjá Íslandsbanka (Glitni). Árið 2007, þegar hann tók lánið sem dómsmálið snýst um, hlyti hann því að hafa gert sér grein fyrir því að verðtryggð lán myndu hækka í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs. Hún benti einnig á að Gunnar hefði um skeið verið sérfræðingur á lánasviði Íslandsbanka. Í gegnum árin hefði hann setið í stjórnum fjölda fyrirtækja og meðal annars verið stjórnarformaður fjárfestingafélaginu Atorku. Vegna alls þessa hlyti hann að hafa verið meðvitaður um verðtryggingarákvæði í lánssamningum.

Áslaug fór yfir sögu verðtryggingarinnar á Íslandi og fullyrti að í raun væri hægt að segja að íslenskt samfélag væri verðtryggt. Þá sagði hún Einar Pál gera ansi lítið úr gáfum og burðum íslenskra neytenda til að skilja verðtrygginguna. Allir meðalgreindir einstaklingar sem komnir væru af barnaskólaaldri viti hvað verðtrygging feli í sér. "Verðtrygging er engin geimvísindi," sagði Áslaug.

Geimvísindi eru raunvísindi

Í andsvörum sagði Einar Páll að laun á Íslandi væru ekki verðtryggð. Íslenskt samfélag væri því mjög fjarri því að vera verðtryggt. Hann tók undir með Áslaugu og sagði að verðtrygging væri engin geimvísindi enda væru geimvísindi raunvísindi. Til að mynda væri hægt að senda geimflaug á sporbaug og reikna mjög nákvæmlega út hvenær flaugin myndi ferðast um geiminn og til baka til jarðar. Þetta væri ekki hægt að gera með vísitölu neysluverðs.

Einar Páll vísaði því næst í skýrslur og gögn sem sýndu fram á að fjármálalæsi Íslendinga væri ábótavant. Það væri því ekki hægt að segja að allir meðalgreindir einstaklingar skilji verðtrygginguna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .