Engin leið er að spá fyrir um niðurstöðu landsdóms í málinu gegn Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra. Flest bendir þó til þess að Geir verði sýknaður af þeim fjórum ákæruliðum sem dómurinn fjallar um, að mati þeirra lögfróðu manna sem Viðskiptablaðið hefur talað við.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku hafði þá lítið komið fram í máli vitna sem styður við framangreinda ákæruliði. Ef aðeins er horft til ákæruliðanna, eins og ber að gera í sakamálum, þá hefur komið skýrt fram á meðal vitnanna að Geir hafði hvorki vald né ráð til þess að minnka bankakerfið né beita sér fyrir því að Icesavereikningar Landsbankans yrðu fluttir úr landi.

Hins vegar er öllu óljósara um hina tvo ákæruliðina, þ.e. störf samráðshópsins og ráðherrafundi um stöðu fjármálakerfisins. Rétt er að hafa í huga að samráðshópur um fjármálastöðugleika er eins og nafnið gefur til kynna aðeins til samráðs og upplýsingamiðlunar.

Hópurinn hafði ekkert stjórnskipunarlegt vald og gat engar formlegar ákvarðanir tekið um aðgerðir, þó svo að einstaka aðilar innan hópsins hafi vissulega getað haft áhrif á aðgerðir sinna vinnustaða. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja litlar líkur á sakfellingu fyrir að tryggja ekki betri árangur af störfum hóps sem á sér enga stoð í lögum.

Hins vegar gætu formleg atriði komið Geir í koll, s.s. umhald og frágangur fundargerða af störfum hópsins. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja að ef dómarar í Landsdómi vilja teygja sig mjög langt í formlegri túlkun laga þá geti slæmt utanumhald um störf hópsins flokkast sem liður í því að tryggja ekki árangur af störfum hans. Ráðherrar misupplýstir

Að sama skapi telja viðmælendur blaðsins að mögulega séu líkur á sakfellingu fyrir fjórða liðinn, þ.e. að hafa ekki staðið skipulega fyrir formlegum ráðherrafundum um stöðu fjármálakerfisins, þótt engin leið sé að spá fyrir um hvort það hefði komið í veg fyrir hrunið eða ekki. Komið hefur í ljós að ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar voru misupplýstir um stöðu mála og dómurinn gæti mögulega talið að það hafi verið alfarið á ábyrgð Geirs að upplýsa viðeigandi ráðherra um stöðuna.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins, sem allir eru hæstaréttarlögmenn, vildu ekki koma fram undir nafni þar sem hér er einungis um vangaveltur að ræða. Eins og fram kemur í upphafi er líklega engin leið að spá fyrir um niðurstöðu dómsins þó að flestir séu þeir sammála um að ákærurnar standi á veikum stoðum.

Samantekt og vangaveltur um ákæruliðina

Rétt er að rifja upp ákæruliðina fjóra og helstu punkta viðmælenda Viðskiptablaðsins við þeim. Rétt er að taka fram að hér er um samansafn af vangaveltum lögfróðra mann að ræða en ekki spá um niðurstöðu dómsins.

Ákæruliðirnir byggja á því að frá febrúar 2008 átti Geir að:

1) tryggja betri árangur af störfum og áherslum samráðshóps um fjármálastöðugleika.

Nefndin hafði ekkert stjórnskipunarlegt vald, var samráðshópur en ekki aðgerðarhópur. Lélegur frágangur fundargerða og skortur á upplýsingaflæði gæti þó leitt til sakfellingar.

2) hafa forystu um að minnka bankakerfið.

Bankarnir voru í einhverjum mæli byrjaðir á þessu sjálfir (með takmörkuðum árangri). Forsætisráðherra hafði ekki vald né heimild til að beita sér fyrir þessu, var hlutverk eftirlitsstofnana í einhverjum mæli en það er þó einnig umdeilt.

3) sjá til þess að Icesave-reikningar Landsbankans yrðu fluttir úr landi.

Sömu rök í þessu og fyrri lið, ekki hlutverk eða hluti af valdaheimild forsætisráðherra.

4) standa fyrir formlegum ráðherrafundum um stöðu fjármálakerfisins.

Huglægt mat um hvaða ráðherrar voru upplýstir um stöðu mála og hvenær. Líklega veikasti liðurinn í vörn Geirs þótt vitnisburðir hafi lítið gefið til kynna annað en að viðeigandi ráðherrar hafi verið upplýstir um það sem þótti nauðsynlegt að þeir vissu.