Sofus Clemmensen, stjórnendaráðgjafi hjá danska ráðgjafarfyrirtækinu Lighthouse Consulting, hélt erindi á útskriftarráðstefnu MPM-námsins við Háskólann í Reykjavík sem fram fór á föstudaginn. Clemmensen er Færeyingur og áður en hann hóf störf hjá Lighthouse Consulting starfaði hann meðal annars sem forstjóri færeyska póstsins.

Clemmensen segir að þegar kemur að verkefnastjórnun sé hugarfar Íslendinga og Færeyinga ólíkt hugarfari þeirra sem búa á meginlandi Evrópu. Eyþjóðirnar búi yfir náttúrulegum sveigjanleika, sem veiti forskot á ýmsum sviðum. „Í samanburði við stærri lönd eru Íslendingar frábærir í þróun. Þeir eru þekktir fyrir það í Evrópu,“ segir Clemmensen í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að fjöldi íslenskra fyrirtækja hafi náð árangri í að selja vörur í Evrópu. Í erindi sínu tók hann danskt dótturfyrirtæki Símans sem dæmi, en það var selt til norræna fjarskiptafélagsins Telia fyrir tveimur árum. „Ástæðan var sú að Telia taldi að Síminn væri mjög sveigjanlegt og skapandi fyrirtæki,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .