*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 8. október 2014 13:45

Verksmiðja Algalífs opnuð

Örþörungaverksmiðja Algalífs hefur tekið til starfa. Um er að ræða tveggja milljarða fjárfestingu sem skapar þrjátíu störf.

Ritstjórn
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á opnuninni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, opnaði fyrsta áfanga örþörungaverksmiðju líftæknifyrirtækisins Algalífs á Reykjanesi í dag, átta mánuðum eftir undirritun fjárfestingasamnings.

Í verksmiðjunni verða ræktaðir örþörungar sem nefnast Haematococcus Pluvialis, en úr þeim er unnið virka efnið Astaxanthin. Er það sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur, auk þess að vera neytt í hylkjaformi. Framleiðslan hefst strax en fullum afköstum verður náð árið 2016.

Fjárfestingin nemur tveimur milljörðum króna og skapar þrjátíu störf á Suðurnesjum í verksmiðjunni. Ráðgert er að verksmiðjan verði fullkláruð árið 2015.