Breska fataverslunarveldið Arcadia, sem rekur verslanir á borð við Topshop, Burton og Dorothy Perkins, hefur verið sett í greiðslustöðvun. Þar með eru um 13 þúsund störf í hættu, að því er kemur fram í frétt BBC um málið.

Arcadia hefur ráðið endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Deloitte til að leiða félagið í gegnum ferlið. Verslanir á vegum Arcadia munu enn um sinn vera opnar, meðan ráðgjafar á vegum Deloitte meta stöðu félagsins og næstu skef.

Þeir sem pöntuðu vörur frá verslunum á vegum félagsins síðastliðinn föstudag, þegar Black Friday fór fram, þurfa því ekki að örvænta þar sem allar pantanir sem bárust umræddan dag verða afgreiddar.

Arcadia hefur átt í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar í kjölfar þess að sala verslana á vegum félagsins hrundi vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Félagið rekur 444 verslanir í Bretlandi og 22 á erlendri grundu.