Vonir minnkuðu um að bati í tæknigeiranum yrði til að hjálpa við bata í hagkerfinu almennt þegar Microsoft skýrði frá óvæntum og umtalsverðum samdrætti í sölu á öðrum fjórðungi ársins.

Þetta kemur fram í frétt FT þar sem segir að tekjur Microsoft, stærsta hugbúnaðarfyrirtækis heims, hafi dregist saman um 17% vegna minnkandi eftirspurnar í heiminum eftir nýjum tölvum. Áður höfðu komið fram jákvæðari tölur í uppgjörskynningum frá Apple og IBM.

Haft er eftir fjármálastjóra Microsoft, Chris Liddell, að gera megi ráð fyrir erfiðri tíð út þetta ár.

Annar fjórðungur er jafnframt síðasti fjórðungur reikningsárs Microsoft og með honum lauk versta ári félagsins í 23 ára sögu þess sem skráð félag. Þetta er í fyrsta sinn sem tekjur þess dragast saman á milli ára.

Hlutabréf Microsoft féllu um 8% eftir lokun markaða í Bandaríkjunum í gær. Fyrr um daginn hafði Dow Jones vísitalan lokað í hæsta gildi sínu í ár.