Rekstrartekjur Hraðfrystistöðvar Þórshafnar fyrstu sex mánuði ársins voru 1.041 millj. kr. og rekstrargjöld voru 755 millj. kr. Hagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði fyrstu sex mánuði ársins nam 286 millj. kr., sem er 27,5% af tekjum. Veltufé frá rekstri nam 238 millj. kr. á tímabilinu en var 164 millj. kr. fyrstu sex mánuði ársins 2003. Eigið fé félagsins er 391 millj. kr. í lok tímabilsins en var 326 millj. kr. í lok ársins 2003.

Hagnaður félagsins er nú 6 milljónum betri en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að afskriftir og fjármagnsgjöld hækki um 50 milljónir milli ára. Afkoma seinni hluta ársins mun ráðast af veiðum uppsjávarfiska og afurðaverði þeirra. Sumarveiðar á loðnu voru minni en gert var ráð fyrir. Verð á mjöli hefur lækkað frá áramótum, en á móti kemur að lýsisverð hefur hækkað. Olíuverð hefur hækkað mikið á sama tíma og hafa þær hækkanir nokkur áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að rekstur samstæðunnar á árinu í heild skili hagnaði.