Viðar Már Matthíasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, var í dag skipaður dómari við Hæstarétt Íslands.

Þetta kemur fram á vef dómsmálaráðuneytisins en það er Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra sem skipar dómara við Hæstarétt. Þetta er fyrsta dómaraskipan Ögmundar frá því að hann varð dómsmálaráðherra.

Aðrir umsækjendur um embættið voru Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari, Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari, og Þorgeir Örlygsson, dómari við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg.

Þess má geta að Viðar Már var skipaður varadómari við Hæstarétt í lok árs 2008. Viðar Már sat þá sem varadómari í tímabundnu leyfi Páls Hreinssonar sem þá gegndi starfi formanns rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna. Það var Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra sem skipaði Viðar Má sem varadómara.