Vírusar og önnur tölvuóværa hafa verið á ferðinni síðan 1986. Fjöldi þeirra tvöfaldast nokkurn veginn á hverju ári, og því þurfa veiruvarnaframleiðendur að takast á við 10.000 nýja hluti á degi hverjum. Þetta segir Friðrik Skúlason, framkvæmdastjóri Frisk Software, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Hinar eiginlegu veirur eru þó nokkurn veginn úr sögunni. Í dag er frekar um að ræða nokkurs konar „bakdyr“ og forrit sem eru að reyna að stela kreditkortaupplýsingum. Einnig eru til forrit sem reyna að stela aðgangsorðum að fjölnotendatölvuleikjum, auk forrita sem stela aðgangi að tölvum í þeim tilgangi að senda út ruslpóst frá þeim. Í dag eru þetta heldur ekki lengur einhverjir stráklingar í lokuðum herbergjum heldur skipulögð glæpasamtök,“ segir Friðrik.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Skrifstofan sem fylgir með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .