Áhyggjur af því að smitast af Covid 19 fara minnkandi meðan áhyggjur af efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins aukst milli mælinga í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Í Þjóðarúlsinum er búið til meðaltal eftir svörum fólks þar sem það svarar því hvort það hafi mjög miklar, frekar miklar, hvorki miklar né litlar, frekar litlar eða mjög litlar áhyggjur af ýmsum atriðum sem snerta faraldurinn og áhrif hans.

Athygli vekur að áberandi hæsta hlutfall stuðningsmanna Viðreisnar finna almennt fyrir litlum kvíða vegna Covid 19, eða 54% þeirra, meðan 26% stuðningsmanna flokksins finna fyrir miklum kvíða.

Hlutfall þeirra sem finna fyrir miklum kvíða er einungis minni hjá einum flokki, Miðflokknum, eða 24%, en þar eru mun færri sem finna fyrir litlum kvíða eða 38%. Sama meðaltal er þó yfir áhyggjur stuðningsmanna beggja flokka, eða 3,3 fyrir meðaltal sem er á bilinu 1 til 7, og er það lægsta meðaltalið yfir alla flokkana.

Píratar og VG liðar kvíða Covid mest

Meðaltalið yfir kvíðann er hins vegar hæst meðal stuðningsmanna Vinstri grænna, eða 4,0, en 36% stuðningsmanna flokksins finna almennt fyrir miklum kvíða vegna faraldursins, meðan 33% finna fyrir litlum kvíða.

Flestir stuðningsmenn Pírata finna þó fyrir miklum kvíða, eða 40%, og þar eru jafnframt fæstir sem svara hvorki né, eða 19%, en meðaltal þeirra er næst hæst eða 3,9. Hins vegar er meðaltalið hæst meðal þeirra sem ætla að skila auðu eða ekki kjósa, eða 4,3.

Jafnramt er hæsta hlutfall þeirra sem styðja Pírata, eða 55%, sem og þeirra sem ætla að skila auðu eða ekki kjósa, eða 54%, sem telja að ríkisstjórnin sé að gera of lítið til að bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum af Covid 19.

Það hlutfall er hins vegar langlægst hjá stuðningsmönnum Vinstri grænna, eða 21%, en hæst hjá stuðningsmönnum Pírata eða 55%, og svo þeirra sem ekki ætla að kjósa eða ætla að skila auðu, eða 54%, meðan langflestir stuðningsmenn Miðflokksins, eða 10% finnst að verið sé að gera of mikið.

Flestir Framsóknarmenn finnst heilbrigisyfirvöld gera of mikið

Jafnframt eru langflestir stuðningsmenn VG, eða 83%, sem treysta rikisstjórninni til að takast á við efnahagslegar afleiðingar Covid 19. Flestir þeirra sem ekki ætla að kjósa eða skila auðu treysta hins vegar ríkisstjórninni illa, eða 33%, en meðal stuðningsmanna einstakra flokka er það hlutfall hæst hjá Miðflokknum eða 31%.

Það eru svo stuðningsmenn Pírata, sem og þeir sem ekki ætla að kjósa eða skila auðu sem telja að almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi séu að gera of lítið til að bregðast við Covid 19, sínu fleiri í síðarnefnda hópnum eða 29% þeirra, meðan hlutfallið er 22% meðal Pírata.

Hlutfall þeirra sem finnst gert of mikið er hins vegar hæst hjá Framsóknarflokki, eða 17%, Viðreisn, 16%, og Miðflokki eða 15%, en þar á eftir koma stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks þar sem það hlutfall er 13%.

Jafnframt eru það Píratar, sem og þeir sem ekki ætla að kjósa eða skila auðu sem finnst almennt of lítið gert úr heilsufarslegri hættu af Covid 19, eða 30% og 34%. Flestir kjósendur Miðflokksins, eða 17%, og Sjálfstæðisflokksins, eða 16%, telja hins vegar of mikið gert úr áhrifunum.

Minnkandi áhyggjur af smiti

Meðaltalið fyrir ótta almennings við að smitast af Covid 19 hefur lækkað annað skiptið í röð samkvæmt nýrri könnun Gallup, en meðaltalið, sem er á bilinu 1 til 5 fór hæst um miðjan október þegar það var 3,3, en er núna komið niður í 3,0.

Áhyggjur af heilsufarslegum áhyggjum af Covid 19 á Íslandi standa hins vegar í stað í sams konar meðaltali eða í 3,6, en það fór hæst í byrjun nóvember og um miðjan október í 3,8 þó það hafi farið niður fyrir núverandi gildi í mælingu sem var gerð í lok október.

Jafnframt hefur verið lækkun á meðaltalinu í spurningunni um hversu mikið fólk hafi breytt venjum sínum til að forðast kórónuveirusmit, úr 4,2 í október í 4,0 nú.

Í mælingu á því hversu vel eða illa fólk treysti almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi til að takast á við faraldurinn, þar sem meðaltalið er á bilinu 1 til 7, hefur meðaltalið mælst 6,1 í síðustu tveim mælingum en haldist nokkurn veginn svipað lengst af.

Traust til efnahagslegra viðbragða sveiflast

Hins vegar hefur verið nokkur sveifla á því hversu vel eða illa fólk treysti íslensku ríkisstjórninni til að takast á við efnahagsleg áhrif faraldursins, en nú lækkar meðaltalið þar, sem er einnig á bilinu 1-7, úr 5,0 í 4,9, eftir að hafa hækkað í síðustu mælingu frá 4,8 síðustu mælingar þar á undan.

Meðaltalið yfir hvort fólk telji almennt of mikið, hæfilega eða of lítið gert úr heilsufarslegri hættu af Covid 19 á Íslandi hefur einnig haldist nokkuð stöðugt eða í 2,9 af meðaltali sem er á bilinu 1 til 5.