Fáir menn hafa upplifað þær breytingar sem orðið hafa á íslensku viðskiptalífi frá eins góðu sjónarhorni og Hörður Sigurgestsson, en hann var forstjóri Eimskips frá 1979 til 2000 og hafði áður starfað hjá Icelandair. Hann sat einnig lengi í stjórn Icelandair, þar sem Eimskip var stór hluthafi.

Hörður segist telja að margir núna eigi erfitt með að gera sér grein fyrir því hvað rekstur fyrirtækja fyrir árið 1990 var frábrugðinn því sem nú er. „Aðstæður voru allt aðrar. Fyrir utan gríðarlega verðbólgu og óstöðugt gengi þá var viðskiptalífið undirselt opinberu valdi. Við þurftum að fá leyfi hjá ráðuneytinu til að kaupa skip, leyfi til að taka lán til að kaupa skip, leyfi til að selja skip. Þetta var allt háð duttlungum nefnda og ráða.

Má sem dæmi nefna að við fengum ekki kreditkort. Bankastjórarnir höfðu komist yfir kreditkort og okkur hinum þótti það mjög ósanngjarnt að sitja ekki við það borð. Eftir nokkurt japl og jaml rann það í gegn að við sem vorum í viðskiptum við útlönd fengum bréf frá gjaldeyriseftirlitinu um að við mættum eiga þetta tiltekna kreditkort. Þegar þeir uppgötvuðu að ég átti annað kort sem ég hafði ekki fengið leyfi fyrir þurfti ég að svara fyrir það.

Ég held reyndar að flugið til Bandaríkjanna, sem Loftleiður höfðu haft forystu um, og samskipti starfsfólks þess fyrirtækis við Bandaríkjamenn hafi smám saman haft áhrif á þjóðina. Þar kynntist fólk alls konar frelsi sem almenningur naut ekki hér á landi og ég held að þetta hafi ýtt undir breytingar til hins betra á Íslandi.“

Hörður segir að þrátt fyrir að Eimskipafélagið hafi verið undirselt opinberu eftirliti að því marki sem hér er nefnt þá hafi staða fyrirtækisins samt verið betri en margra annarra. „Það voru nokkur stærri fyrirtæki sem voru að afla gjaldeyristekna og fengu því frírra spil en mörg önnur. Við þurftum til dæmis, stærðarinnar vegna, að eiga viðskipti við erlenda banka því íslensku bankarnir gátu ekki fjármagnað okkar fjárfestingar. Önnur smærri fyrirtæki gátu þetta ekki. Á tíunda áratugnum urðu margar mikilvægar breytingar til hins betra og frelsi allt aukið mjög mikið. Öll samskipti við útlönd urðu einfaldari og sama á við um samskipti við ríkisvaldið hér heima. Við þurftum ekki lengur leyfi til að kaupa eða selja skip og við réðum því sjálf hvar við sóttum fjármagn þangað sem við vildum. Eins með verðlagseftirlit á flutningagjöldum.“

Viðtalið við Hörð má finna í heild sinni í 20 ára afmælisriti Viðskiptablaðsins.