Byggingavöruverslunin Byko hagnaðist um 131 milljón króna á síðasta ári, en þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins. Þetta er töluverður viðsnúningur frá árinu 2013 þegar fyrirtækið skilaði tapi sem nam 156 milljónum króna.

Vörusala fyrirtækisins jókst töluvert á milli ára og nam nú 12,06 milljörðum króna samanborið við 10,87 milljarða ári fyrr. Framlegð af vörusölu jókst um 425 milljónir króna á milli ára og nam nú 3,63 milljörðum króna.

Eignir Byko námu 4,45 milljörðum króna í árslok en skuldir voru 3,27 milljarðar króna. Eigið fé var því 1,18 milljarðar króna í lok ársins og jókst um 131 milljón króna milli ára.

Norvik hf. er stærsti hluthafi Byko með 95,72% eignarhlut. Jón Helgi Guðmundsson er forstjóri Norvikur og stærsti eigandi fyrirtækisins.