Bandaríski tískuvöruframleiðandinn Ralph Lauren hagnaðist um 59,5 milljónir dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 22,3 milljóna dollara tap á sama tíma í fyrra samkvæmt frétt Reuters .

Sala fyrirtækisins nam 1,35 milljörðum dollara á tímabilinu og dróst saman um 13,2%. Þrátt fyrir það hækkaði framlegðarhlutfall Ralph um 2,1 prósentustig og nam 63,2% á tímabilinu.

Fyrir utan einskiptikostnað nam hagnaður á hlut 1,11 dollurum á meðan greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir að hagnaður á hlut myndi nema 94 sentum.

Eftir að uppgjörið birtist hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað um 9,8% eftir að hafa lækkað um rúmlega 16% það sem af er þessu ári. Er hækkun dagsins rakinn til þess að hagnaður hafi verið hærri en gert hafi verið ráð fyrir auk þess sem að hagræðingaraðgerðir virðast vera að skila sér í hærra framlegðarhlutfalli.