Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2015 sýnir jákvæða rekstrarafkomu sem nemur 170 milljónum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sveitarfélaginu í dag. Er það viðsnúningur á milli ára en rekstrarhalli var um 104 milljónir árið 2014.

Rekstrartekjur hækkuðu um 420 milljónir á milli ára eða 13,8% og rekstrargjöld um 5,6%.  Skuldir lækka áfram og handbært fé eykst umtalsvert. Í tilkynningunni segir jafnframt að Borgarbyggð standist nú þær fjármálareglur sem sveitarfélögum eru settar, 3 ára rekstrarjöfnuður sé jákvæður og skuldahlutfall haldi áfram að lækka og sé nú komið í 138% af veltu.

Í fréttatilkynningunni segir að margir samverkandi þættir stuðluðu að þessari jákvæðu rekstrarniðurstöðu og megi þar m.a. nefna ýmsar aðhaldsaðgerðir sem fyrrum sveitarstjóri, sviðsstjórar og forstöðumenn stofnana leiddu, stofnanir sveitarfélagsins stóðust fjárhagsáætlun, framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga urðu 120 milljónum hærri en ráð var fyrir gert, fasteignagjöld voru hækkuð sem leiddi til um 100 milljón króna viðbótar tekna, eignasala bætti sjóðsstöðu, lág verðbólga dró úr fjármagnskostnaði og framkvæmdir voru í sögulegu lágmarki. Þá hefur íbúum hefur fjölgað um 100 á milli ára og útsvarstekjur þar með hækkað.