Vífilfell skilaði inn ársreikningi sínum fyrir árin 2008 og 2009 í júlí síðastliðnum. Þar kemur fram að fyrirtækið hafi selt vörur fyrir 10,2 milljarða króna á árinu 2009 sem er tæplega 20% meira en það gerði árið áður.

Alls nam rekstrarhagnaður Vífilfells árið 2009 717 milljónum króna. Fjármagnskostnaður og skattgreiðslur leiddu þó til þess að fyrirtækið skilaði 56 milljóna króna tapi á því ári.

Afkoman skánaði þó mikið frá árinu 2008 þegar Vífilfell tapaði 645 milljónum króna þrátt fyrir að skila 485 milljóna króna rekstrarhagnaði. Fjármagnskostnaður upp á 1,4 milljarða króna olli því tapi.

Alls voru eignir Vífilfells metnar á 8,7 milljarða króna í árslok 2009 og eigið fé félagsins á þeim tíma var um 1,1 milljarður króna. Skuldirnar voru því rúmlega 7 milljarðar króna en þær hafa síðan verið lækkaðar um 2 milljarða króna í sambandi við sölu á fyrirtækinu til Cobega fyrr á þessu ári.

Samkvæmt ársreikningnum skulduðu Sólstafir, félag Þorsteins M. Jónssonar, Vífilfelli 95,3 milljónir króna í árslok 2009. Vífilfell hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2010.