Hildur Petersen, stjórnarformaður Spron, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en eins og greint var frá fyrr í dag, hafa fimm manns gefið kost á sér til stjórnarsetu.

Í samtali við Vb.is sagði Hildur að hún hafi viljað fjölgað konum í stjórn og í ljósi langrar stjórnarsetu sinnar hafi henni fundist rétt að stíga til hliðar. Hildur hefur setið í stjórn Spron í samtals 16 ár.

„Ég sá þarna tvær mjög efnilegar konur sem voru tilbúnar að gefa kost á sér til stjórnarsetu. Mín tilfinning var sú að fjölga þyrfti konum í stjórninni og ég er tilbúin til að stíga til hliðar til að hleypa þeim að.”

Hún telur að fjármálafyrirtæki þurfi að taka af skarið í jafnréttisbaráttunni og telur því þetta skref vænlegt.

„Ég tel að í framtíðinni muni bæði fólk og fyrirtæki beina viðskiptum sínum til fyrirtækja sem sýna fordæmi með því að hafa jafnrétti í stjórnum sínum,” sagði Hildur.

Fyrir nokkrum vikum var mikil umræða um sölu Hildar á stofnfé sínu í bankanum. Aðspurð um hvort það hafi haft áhrif á ákvörðun sína segir Hildur svo ekki vera. Hún tekur fram að þegar hafi verið opið fyrir innherjaviðskipti og salan hafi verið eðlileg.