Gjaldeyrishöftin og frestun á afnámi þeirra má líkja við sprengju sem mun á endanum springa í andlitið á þjóðinni. Því þarf að afnema höftin sem allra fyrst. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), rifjar upp í leiðara nýjasta fréttabréfs SA, að í vor hafi verið lagðar fram hugmyndir um afnám haftanna sem gengu í aðalatriðum út á að sprengjan yrði aftengd með því að eigendur krafna í krónum gæfu afslátt af þeim gegn því að þeim yrði breytt í kröfur til langs tíma í erlendum gjaldmiðlum.

„Þessi leið kallar á mikla ákveðni og frumkvæði af hálfu stjórnvalda. Ekki hefur reynst vilji til að fara hana,“ skrifar Vilhjálmur.

Efni leiðarans eru höftin og skuldabyrði þjóðarinnar. Vilhjálmur er þeim andsnúinn og fullyrðir að byrðin  vaxi innan hafta og gera þjóðinni erfiðara um vik að standa undir skuldbindingum sínum.

Á endanum þarf að semja

„Rísi þjóðin ekki undir þeim skuldum við erlenda aðila í íslenskum krónum sem réttlæta gjaldeyrishöftin þarf að ná fram lækkun þeirra, annað hvort með beinum afslætti af kröfunum með samningum eða verðfellingu í gegnum gengislækkun. Framhald gjaldeyrishafta frestar vandanum, stækkar hann og leiðir á endanum til ófyrirsjáanlegra hremminga,“ segir Vilhjálmur.

Leiðari fréttabréfs SA