*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 11. desember 2019 07:12

Vilja að SRS fái ákæruvald

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt til að breyting verði gerð á embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Jóhann Óli Eiðsson
Oddný G. Harðardóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Haraldur Guðjónsson

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt til að breyting verði gerð á embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) þess efnis að embættið fái ákæruvald í málum sem það rannsakar. Þetta felst í þingsályktunartillögu flokksins.

Tillagan felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra þurfi að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að útfæra tillöguna og leggja fram frumvarp um efnið á næsta þingi.

Óefni hefur verið í meðferð skattamála hér á landi um nokkurt skeið. Fyrir rúmum tveimur árum var málsmeðferð hér á landi talin í andstöðu við Mannréttindasáttmála Evrópu en sáttmálinn kveður á við bann við tvöfaldri refsingu fyrir sama brot. Ákvæðið hefur einnig verið túlkað á þann veg að tvöföld málsmeðferð vegna sama brot sé almennt óheimil. Þrír slíkir dómar, er varða Ísland, hafa fallið út í Strassbourg.

Sjá einnig: „Drulluþreyttur á þessu“

Fjallað var ítarlega um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu nú á dögunum. Þar kom meðal annars fram að mál sem dæmt var í Hæstarétti - sjö dómara mál þar sem nýjar línur voru lagðar - sé einnig komið til Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Hér á landi hefur það tíðkast að brotlegum gjaldendum sé gerð sekt á stjórnsýslustigi auk þess að mál þeirra séu send í ákærumeðferð hjá héraðssaksóknara. Slík meðferð getur rúmast innan réttlátrar málsmeðferðar, samkvæmt MSE, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það er að meðferð hjá skattayfirvöldum og saksóknara sé samþætt í tíma og efni. Umrædd skilyrði eru afar matskennd og hefur nær undantekningalaust verið farið fram á frávísun skattamála fyrir dómi af þeim sökum. 

Sjá einnig: Plástrar til að bregðast við MDE

Þá hefur það ítrekað gerst að dregist hefur að gefa út ákærur hjá héraðssaksóknara í fullrannsökuðum málum frá SRS. Í september á þessu ári voru til að mynda 140 óafgreidd mál hjá héraðssaksóknara sem send höfðu verið þangað af SRS. Þar af eru sex mál sem send voru saksóknara árið 2015 og níu mál frá 2016. 

„Samkvæmt upplýsingum frá [SRS] er það svo að þrátt fyrir að málum frá embættinu sé samkvæmt orðanna hljóðan vísað til rannsóknar héraðssaksóknara sé almennt ekki um að ræða rannsókn málanna frá grunni hjá því embætti heldur séu rannsóknirnar alla jafna reistar á þeirri rannsókn sem skattrannsóknarstjóri hefur framkvæmt og lýst er í skýrslu hans um viðkomandi mál. Þannig er byggt á gagnaöflun [SRS] auk þess sem niðurstöður [SRS] eru yfirleitt lagðar til grundvallar að öllu leyti,“ segir í greinargerð með tillögunni. 

Flutningsmenn tillögunnar telja að hún geti orðið til þess að draga úr tvíverknaði í kerfinu auk þess að spara fyrirhöfn og kostnað. Breytingin myndi einnig draga úr þeim tíma sem einstaklingar þurfa að bíða með réttarstöðu sakbornings.