*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 25. nóvember 2020 17:59

Vilja afskrá Skeljung

Stefnt er að afskráningu Skeljungs gangi yfirtökutilboð í félagið sem skyldi.

Ritstjórn
Ingibjörg Pálmadóttir aðaleigandi 365 og Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Skeljungs.
Eggert Jóhannesson

Fjárfestahópurinn á bak við yfirtökutilboðið í Skeljungi stefnir á að afskrá félagið úr Kauphöll Íslands. Þetta kemur fram í kynningu sem hópurinn hefur unnið í tengslum við yfirtökutilboðið.

Að baki yfirtökutilboðinu standa þrír aðilar sem samtals eiga 39% í Skeljungi í gegnum félagið Streng ehf.  Félögin þrjú eru 365 hf., RES 9 og RPF. 365 og RES 9 eiga bæði 38% í Streng og RPF með 24%.

365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, er eiginmaður Ingibjargar. RES 9 er í eigu RES II ehf., sem er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, og breska fjárfestingafélagsins No. 9 Investments Limited. RPF er í eigu Þórarins A. Sævarssonar, sem er stjórnarmaður í Skeljungi, og Gunnars Sverris Harðarsonar. Þórarinn og Gunnar Sverrir eiga einnig fasteignasöluna RE/MAX Senter. 

Í kynningunni eru raktar þær áskoranir sem fram undan eru hjá félaginu í tengslum við samþjöppun viðskiptavina, rafbílavæðingu og stefnu yfirvalda. Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir hafi rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) lækkað að jafnaði um 2,5% á ári frá árinu 2016. Ljóst sé að bílum knúnum af jarðefnaeldsneyti muni fækka á næstu árum á kostnað rafmagnsbíla. Reykjavíkurborg vilji fækka bensínstöðvum um helming 2025 og banna á sölu nýrra dísil og bensínbíla hér á landi árið 2030. Viðskiptavinum í sjávarútvegi sé einnig að fækka þar sem sjávarútvegsfyrirtækin séu að verða stærri og skipin þar að auki sífellt sparneytnari. 

Því megi búast við að gera þurfi umtalsverðar breytingar á starfsemi Skeljungs á næstu árum til að takast á við breytt umhverfi. Hugsanlega þurfi að selja eignir, hætta ákveðinni starfsemi eða breyta áherslum og hagræða í rekstri. Breytingarnar kunna að verða til þess að afkoman verði sveiflukenndi til millilangs tíma. 

„Við breytingar í rekstri félagsins getur það hamlað félaginu að vera skráð og jafnframt kann félagið að verða of lítið svo óhagræði af skráningu aukist enn frekar,“ segir í kynningunni. Á slíkum óvissutímum  séu ákvarðanir og stefnumörkun best borgið í höndum samstillts hluthafahóps.

Þá sé árlegur kostnaður félagsins sem rekja má til skráningar áætlaður yfir 8% af hagnaði félagsins á síðastliðið ár. 

Í kynningunni er bent á að félagið sé eitt það minnsta í Kauphöll Íslands þegar horft er til virði félaganna í heild. Flot bréfa félagsins hafi dregist verulega saman. Aðrir hluthafar en lífeyrissjóðir og Strengur eigi einungis um 20% hlut í félaginu. Þá hafi stór hluti viðskipta með bréf Skeljungs á þessu ári tengst hluthöfum Strengs. 

Strengur mun senda inn yfirtökutilboð í Skeljung í síðasta lagi þann 6. desember og mun tilboðið gilda í fjórar vikur. Yfirtökutilboðið er á genginu 8,315 krónur á hlut en við lok viðskipta í dag stóð gengi bréfanna í 8,8 krónum á hlut.

Stikkorð: 365 Skeljungur Strengur yfirtökutilboð RES II RES 9