*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Innlent 8. júlí 2019 15:15

Vilja bjóða upp eignir Sverris gullsala

Níu fasteignir í eigu Sverris Einars Eiríkssonar sem rak Kaupum gull og stofnaði Hraðpeninga eru á leið á nauðungarsölu.

Ritstjórn
Ýmissa grasa kennir í viðskiptaferli Sverris Einars Eiríkssonar.
Aðsend mynd

Landsbankinn hefur farið fram á nauðungarsölu níu fasteigna á Kjalarnesi, nánar tiltekið fyrirtækjahverfinu við Esjumela, sjö í Koparsléttu 16 og tvegga í Koparsléttu númer 18, allar í eigu félagsins KD7 ehf.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá fyrirtækjaskrá er KD7 ehf. í eigu félagsins K9 Kringlan ehf. sem er aftur í eigu Sverris Einars Eiríkssonar, sem meðal annars var þekktur fyrir að reka félagið Kaupum gull á árunum eftir hrun. Nýjasti ársreikningur KD7 sem skilað hefur verið til ársreikningaskrár er frá árinu 2015 og nýjasti ársreikningur K9 Kringlan ehf. er fyrir árið 2013.

Vísir greindi frá því árið 2017 að Sverrir Einar, í gegnum Byggingarfélagið Þak, hefði hafið sölu 10 íbúða á Kársnesbraut í Kópavogi sem kaupendur gætu fjármagnað með 95% láni. 

Jafnframt var rifjuð upp viðskiptasaga Sverris Einars sem hafði rekið starfsmannaleiguna Proventus ehf., fyrir hrun en hún var tekin til gjaldþrotaskipta í júlí 2009. Kærði Sverrir sýslumann og tvo starfsmenn embættissins og sagði þá hafa falsað aðfaragerð vegna gjaldþrotaskiptana.

Eins og áður sagði hóf hann síðan kaup á gulli gegn veðlánum og síðar bætti hann við málverkum og öðrum listmunum. Loks fór hann til Afríku árið 2009 og stundaði demantaviðskipti, en sama ár kom hann jafnframt að stofnun smálánafyrirtækisins Hraðpeninga, sem endaði þó með málaferlum þegar hann vildi frá þriðjungs eignarhlut sinn í félaginu viðurkennda.

Einnig komst Sverrir Einar nokkuð í fréttir þegar hann rak pítsustaðinn Gamla Smiðlan í Lækjargötu, þegar hann rukkaði óánægðan viðskiptavin um leigugreiðslu sem Sverrir sagði síðan að beinast hefði átt að nánum fjölskyldumeðlim sem hann hafði ruglað viðskiptavininn við.