Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill hækka skatt á hótel- og gistiþjónustu auk þess að afnema undanþágur í ferðaþjónustunni frá greiðslu virðisaukaskatts. Hann segir að ekki sé hægt að réttlæta að undanþágur frá virðisaukaskatti í ferðaþjónustu, á sama tíma og hækka eigi matarskatt. Þessu greinir RÚV frá.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa gagnrýnt hugmyndir Bjarna Benediktssonar um að hækka virðisaukaskatt á matvöru. Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra og framsóknarkona , skrifaði á bloggsíðu sína í gær að skattabreytingar mættu ekki bitna á þeim sem lægstar tekjur hafa. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins,tekur undir þetta og skrifaði á Facebook-síðu sína í morgun að á sama tíma og skattahækkanir á matvæli séu boðaðar, bóli ekkert á að ferðaþjónustan og aðilar tengdir henni borgi sitt.

Síðasta sumar samþykkti þingmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að falla frá ákvörðun síðustu ríkisstjórnar um að hækka virðisaukaskatt á hótel- og gistiþjónustu úr 7% í 14%. Karl segir tímabært að endurskoða þessa ákvörðun núna.

Karl segir í samtali við RÚV að hægt sé að ná inn miklum tekjum með því að hækka skatt og afnema undanþágur í ferðaþjónustu. Hann segist ætla að bíða til að sjá hvernig skattamálum verði hagað en telur sjálfur algerlega nauðsynlegt að þessar breytingar verði í fjárlagafrumvarpinu. Hann segir að þessar hugmyndir njóti fylgis, sérstaklega meðal þingmanna Framsóknarflokksins.