„Það á að hlusta meira á þá sem kvörtuðu hvað sárast,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, þegar hann mælti í dag fyrir frumvarpi sem felur í sér að nýsamþykkt lög um náttúruvernd verði felld niður í heild sinni. Frumvarpinu var dreift á Alþingi í síðustu viku og áttu náttúruverndarlögin að taka gildi í apríl á næsta ári.

Sigurður sagði umtalsverð gögn liggja fyrir í málinu sem kveði á um mikilvægi þess að taka það upp að nýju og hvatti til meira samráðs nú en áður en lögin voru samþykkt. Sökum þessa sagði hann skynsamlegt að setjast niður og reyna að ná fram meiri sátt um lögin en áður.

Frumvarpið var harðlega gagnrýnt á Alþingi í umræðum um það í dag, sérstaklega mótmæltu því Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, og Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður VG. Þá fullyrti Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, að Sigurður hafi í gegnum tíðina beitt sér ítrekað gegn náttúruvernd og því hafi verið varasamt að setja hann í sæti umhverfisráðherra.

Sigurður benti á að í gildi séu náttúruverndarlög. Þau verði í gildi áfram. Unnið sé að gerð nýrra laga og sé stefnt að því að fella þau nýsamþykktu úr gildi vegna ýmissa galla á þeim.