*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 13. apríl 2016 14:51

Vill koma í veg fyrir sölu ríkiseigna

Samfylkingin leggur fram frumvarp um tímabundið bann við sölu eignarhluta ríkisins í fjármálastofnunum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Formaður Samfylkingarinnar segir núverandi stjórnarmeirihluta ekki treystandi til að selja ríkiseignir. Nauðsynlegt sé að tryggja með lögum að ríkisstjórnin geti ekki selt eignarhlut ríkisins í fjármálastofnunum. Með það fyrir augum hefur samfylkingin lagt fram frumvarp um tímabundið bann við sölunni. Þetta kemur fram á fréttavefnum visir.is í dag. 

Í fjárlögum þessa árs er fjármála- og efnahagsráðherra veittar heimildir til að selja eignarhluti ríkisins í Arion banka, Íslandsbanka, þá hluti sem eru umfram 70% af hlut ríkisins af heildarhlutafé í Landsbankanum og eignarhluti ríkisins í sparisjóðum.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem, ef fram nær að ganga, kemur í veg fyrir söluna fram til 1. nóvember, en gera má ráð fyrir að eftir þann tíma verði ný ríkisstjórn tekin til starfa.

Árni Páll segir að hann hafi fundið fyrir mjög miklum ótta fólks við stöðuna nákvæmlega núna. Tiltrú á þessa ríkisstjórn og umgengni hennar um eignir ríkisins og peningalega hagsmuni þjóðarinnar sé í algeru lágmark.

Árni Páll segir jafnframt að eftir Borgunarmálið og önnur mál sé þanþol þjóðarinnar þannig að forystumenn stjórnarflokkanna geti ekki farið fyrir sölu fjármálafyrirtækjanna þótt tíminn til þess fram að kosningum sé vonandi of skammur til þess. Það þurfi þó að senda skýr skilaboð um að þessi ríkisstjórn hafi ekki tiltrú til að selja eða bjóða til sölu ríkiseignir.