Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að það komi vel til greina að leggja fram nýja þingsályktunartillögu á þingi um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

„Ég held að það viti allir að ríkisstjórnin vill ljúka þessu máli í eitt skipti fyrir öll," segir Gunnar Bragi í viðtali á RÚV. „Það má velta fyrir sér hvernig Evrópusambandið sjálft er að halda á málum. Við virðumst ekkert vera á blaði hjá þeim í dag. Þannig að slit á þessu með tillögu kemur bara vel til greina. Við skoðum þetta bara í rólegheitum.“

Gunnar Bragi lagði fram samskonar tillögu á síðasta þingi. Olli sú tillaga töluverðu fjaðrafoki og var meðal annars efnt til mótmæla á Austurvelli margar helgar í röð.