Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, vill að viðskiptanefnd þingsins verði falið að semja lagafrumvarp um nýja tegund hlutafélaga sem væri með gagnsætt eignarhald. Slíkum félögum yrði jafnframt bannað að lána til eða eiga í hlutafélögum sem eiga þau beint eða óbeint.

Hann hefur lagt þingsályktunartillögu þessa efnis fram á Alþingi. Í tillögunni er lagt til að viðskiptanefnd leggi fram tilbúið frumvarp fyrir 1. október nk. sem gæti tekið gildi um næstu áramót.

Þingmaðurinn segir í greinargerð tillögunnar að ástæður fyrir hruni bankanna séu fjölmargar. Eflaust séu enn ekki allar komnar í ljós. „Þó er greinilegt að gagnkvæmt eignarhald, raðeignarhald og óljós dulin eign var ein af þeim ástæðum sem ollu því að efnahagur fyrirtækja bólgnaði út og sýndi miklu meira eigið fé en raunverulega var til staðar," segir í greinargerðinni.

Pétur tekur í greinargerðinni dæmi af Kaupþingi og Existu og nefnir að þau hafi á tímabili átt um 20% hvort í öðru og að markaðsvirði hvors hlutar hafi verið um 40 milljarðar kr.

„Ef félögin hefðu keypt eigin bréf hvort af öðru hefðu þau hlutabréf verið verðlaus því eigin hlutabréf eru eðli máls samkvæmt verðlaus. Þá hefðu tugir milljarða gufað upp, enda voru þeir aldrei til staðar."

Sala Kaupþings á hlutabréfum til starfsmanna sinna gegn láni með veði í hlutabréfunum án frekari ábyrgða væri angi af sama meiði. „Eignarhald erlendra félaga á Jómfrúreyjum og öðrum fjarlægum stöðum á bönkunum hér á landi villti um fyrir almennum hluthöfum, eftirlitsaðilum og fjölmiðlum," segir hann enn fremur.

Allt eftirlit með fjármálafyrirtækjum væri nánast ómögulegt þegar eignarhaldið væri dulið og falið í erlendum félögum og vill hann, sem fyrr segir, ráða bót á því með lögum um nýja tegund hlutafélaga, sem væru með gagnsætt eignarhald.

Tillöguna í heild má finna hér.