Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir að mjög afdrifaríkar ákvarðanir hafi verið teknar á þeim fundum stýrihóps fjármálaráðuneytisins vegna endurreisnar bankanna árið 2009 þar sem fundargerðir vantar. Hún segir að ef þessar fundargerðir finnist ekki verði að ráðast í rannsókn á tölvugrunnum fjármálaráðuneytisins, sambærilega þeirri sem gerð var í innanríkisráðuneytinu í kjölfar lekamálsins.

Í viðtali við Morgunblaðið segir Vigdís að gögn málsins kalli á frekari rannsókn á tildrögum þess að bankarnir voru einkavæddir á síðasta kjörtímabili. Hún telur jafnframt heillavænlegast að rannsaka einnig fyrri einkavæðinguna, til að skapa megi sátt í samfélaginu og stjórnmálum.

Fullkomið valdaframsal

Vigdís segir að hún hafi fengið þau svör frá fjármálaráðuneytinu að ekki hafi verið gefið út skipunarbréf vegna þeirra sem sátu í umræddum stýrihóp. Hún segir þetta vera alvarlegt mál.

„Ef slíkt bréf er ekki gefið út, þá geta einstaklingar tekið sér það vald sem þeir vilja. Ef fundargerðirnar eru lesnar er ljóst að það var farið frjálslega með valdheimildir ríkisins í þessum málefnum. Fullkomið valdaframsal átti sér stað í tilfelli löggjafans þar sem undirritaðir voru fjármálagjörningar upp á hundruð milljarða án aðkomu fjárveitingarvaldsins,“ segir Vigdís.

Mörg Borgunarmál

Vigdís segir gögn málsins benda til þess að tekin hafi verið ákvörðun um að rukka heimili og fyrirtæki upp í topp. „Lífvænleg fyrirtæki voru knésett og þau rifin af eigendum sínum, skuldahreinsuð og færð í hendur annarra. Þetta er það sem allir vita,“ segir hún.

Þá segir hún að engin umræða hafi verið um það á síðasta kjörtímabili að fara með þessi fyrirtæki í opið söluferli. Mörg dæmi sé um ofurhagnað þessara fyrirtækja. „Það voru mörg „Borgunarmálin“ á síðasta kjörtímabili,“ segir Vigdís.