Bolli Héðinsson, hagfræðingur og formaður Samtaka sparifjáreigenda, telur að lífeyrissjóðir ættu að koma á fót sjálfstæðu kjararáði til að koma í veg fyrir of háar launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækja í þeirra eigu. Þetta kemur fram í viðtali hans við Fréttablaðið.

Bolli segir að lífeyrissjóðir ættu að notfæra sér það afl sem þeir hafi sameiginlega til að reyna að hindra launaskrið. „Í stað þess að búa við stöðugar hótanir stjórnenda um að þeir fari eitthvert annað, fái þeir ekki þau laun og kaupauka sem þeir krefjist,“ segir Bolli.

Bolli vill að kjararáðið verði sjálfstæð nefnd sem úrskurði um laun stjórnenda fyrirtækja í eigu lífeyrissjóða.

Aðspurður segist hann ekki hafa áhyggjur af því að íslenskir stjórnendur leiti úr landi. „Ég veit að það er engin eftirspurn eftir íslenskum stjórnendum í útlöndum, nema manni og manni,“ segir hann. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, stærsta lífeyrissjóðs landsins, segir hugmyndina nýja og skoðunarverða.

„Hún gengur hins vegar út á víðtækara samstarf milli lífeyrissjóða en er til staðar því hver og einn lífeyrissjóður kemur fram sem sjálfstæður fjárfestir. „Ég hef ákveðnar efasemdir um að markaðurinn og samkeppnisyfirvöld myndu heimila þetta víðtæka samstarf lífeyrissjóðanna,“ segir hann.

Haukur segir hluthafastefnuna sem LSR hafi samþykkt ganga út frá því að launakjör stjórnenda þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðurinn eigi hlut í séu hófleg en í takti við það sem tíðkist hjá sambærilegum fyrirtækjum. Bolli telur hins vegar ekki að samkeppnisyfirvöld muni setja sig upp á móti fyrirkomulaginu og bendir á að Samtök atvinnulífsins reki til að mynda samræmda kjarastefnu.