*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 13. apríl 2014 08:34

Vinnuaðstæður hafa áhrif á framleiðni

Markmiðið með orkustjórnun er að gera vinnuaðstæður þannig að þær ýti undir hámarksframleiðni hverju sinni.

Ritstjórn
Katrín S. Óladóttir framkvæmdastjóri Hagvangs og Leifur Geir Hafsteinsson aðstoðarframkvæmdastjóri.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Orkustjórnun er ráðgjafaþjónusta sem Hagvangur hefur verið að byggja upp og er veitt einstaklingum, hópum innan fyrirtækja eða fyrirtækinu í heild. Markmiðið er að auka frammistöðu fólks í vinnu án þess að það kosti meiri tíma eða ójafnvægi í lífi fólks.

Leifur Geir Hafsteinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Hagvangs, segir að þrír þættir séu skoðaðir. Eitt sjónarmiðið er líkamlegur þáttur, manneskja sem er illa sofin eða borðar næringarsnauðan mat starfar ekki eins vel og hún gæti. Sjónarmið tvö er hvort fólk hafi stjórn á athygli og einbeitingu. Þriðji þátturinn er tilfinningaþátturinn. Ef folk er kvíðið, reitt eða pirrað þá getur það unnið sína vinnu en það kostar mikla orku og streita sem því fylgir getur haft áhrif á heilsu. Leifur Geir segir að orkustjórnun snúist um að hjálpa fólki innan tiltekins fyrirtækis að skoða sjálft sig út frá þessum þremur þáttum og breyta því sem þarf að breyta.

„Við byrjum oftast á stjórnendum, við höldum svo kynningarfyrirlestra fyrir almenna starfsmenn, förum með fólk í gegnum vinnustofur þar sem við ráðumst á þetta kerfisbundið og látum fólk gera verkefni þar sem það greinir sína stöðu. Þar með getur hver og einn séð hvar hann er staddur. Þegar fólk er orðið meðvitað um það hvar veikleikar þess liggja þá hjálpum við því að takast á við þá. Sú breyting getur átt sér stað hjá einstaklingnum, hjá deildinni sem hann vinnur hjá eða hjá fyrirtækinu í heild sinni,“ segir Leifur Geir. 

Markmiðið sé að gera vinnuaðstæður þannig að þær ýti undir hámarksframleiðni hverju sinni. „Það er mikilvægt að menn átti sig á því að þetta er gert fyrir meiri framleiðni,“ segir Leifur. Fyrirtæki eigi ekki að hugsa þannig að þau séu að eyða peningunum í starfsmenn heldur verja þeim til að auka framleiðni sína.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Hagvangur