Sú vinna sem hefur farið fram hjá Vinnumálastofnun við greiðslur til fiskvinnslustöðva hefur verið flutt til Blönduóss. Að sögn Gissurs Péturssonar, forstjóra Vinnumálastofnunar, er hér ekki um að ræða stórvægilega breytingu hjá stofnuninni. Þarna væri verið að flytja eitt starf frá skrifstofunni í Reykjavík á svæðisskrifstofu þeirra á Blönduósi.  "Þar hafa verið vannýttir starfskraftar þannig að það er enginn kostnaður við þetta hjá okkur heldur þvert á móti hagræðing. Hér er líka um að ræða verkefni sem skilgreina má sem hefðbundið fjarvinnsluverkefni og mér rennur blóðið til skyldunnar að leitast við að móta slík verkefni í þann búning að hægt sé að vinna þau úti á landi  sem í Reykjavík," sagði Gissur í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

Gissur benti ennfremur á að umsóknir berist nú rafrænt eða í pósti til þeirra og samskipti fara fram þannig einnig og greiðslan fer sömuleiðis fram rafrænt þannig litlu eigi að breyta hvar starfsmaðurinn er staðsettur. Þessi breyting kemur líka í kjölfar úttektar á greiðslum til fiskvinnslustöðva vegna fiskvinnslufólks sem Vinnumálastofnun gerði á síðasta ári;  breytingu á lögum nr. 51/1995 um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna fiskvinnslufólks,  gildistöku reglugerðar nr. 556/2004 um sama efni.  "Við ætlum að auka skilvirkni við vinnuna en líka að auka eftirlit þannig að framkvæmd laganna sé traust og til fyrirmyndar," sagði Gissur.