Vinnumálastofnun greiddi út um 2,1 milljarð í atvinnuleysistryggingabætur fyrir tímabilið 20. janúar til 19. febrúar. Samtals fengu rúmlega 15.500 manns greiddar bætur.

Í janúarmánuði námu heildargreiðslur um 2,1 milljarði einnig, en þá fengu um 16.200 manns bætur. Í byrjun þessa árs mældist meðaltalsatvinnuleysið um 9 prósent, en það jafngildir um 14.600 manns. Atvinnuleysið hefur heldur aukist að undanförnu. Í febrúarmánuði var tilkynnt um 200 uppsagnir í hópuppsögnum, þar af voru flestar í mannvirkjageiranum.